Boxið 2015 - framkvæmdakeppni framhaldsskólanna

2.11.2015

Boxið 2015, framkvæmdakeppni framhaldsskólanna, fór fram í Háskólanum í Reykjavík 31. október s.l.  Háskólinn í Reykjavík, Samtök iðnaðarins, Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Samband íslenskra framhaldsskólanema standa að Boxinu.

Átta fyrirtæki innan SI lögðu fram verkefni eða þrautir, sem átta hópar framhaldsskólanema frá jafnmörgum skólum kepptust um að leysa.  Að þessu sinni tók Rafal þátt í viðburðinum með því að útbúa þraut sem tengdist rafmagni, virkjunum og flutningskerfi raforku hérlendis, en auk Rafals lögðu fyrirtækin Kjörís, Ísloft, Jáverk, Luxor, Mannvit, Marel og Radiant Games fram þrautir fyrir þátttakendur.

Skólarnir sem þátt tóku voru Fjölbrautaskóli Suðurlands, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Flensborgarskólinn, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn í Kópavogi, Menntaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Hamrahlíð og Menntaskólinn við Sund.

Sigurvegari keppninnar var Menntaskólinn á Akureyri, en Menntaskólinn við Hamrahlíð og Menntaskólinn í Reykjavík voru í öðru og þriðja sæti.

Boxið er vettvangur fyrir framhaldsskólanema til að spreyta sig á ólíkum verkefnum, reyna á samvinnu og kynnast tækni og iðnaði á skemmtilegan hátt. Keppnin er frábær vettvangur fyrir ungt fólk sem er óhrætt við að hugsa út fyrir boxið og reyna á hugvit sitt og verklag í góðum hópi.

Markmiðið með keppninni er að kynna og vekja áhuga á tækni, tækninámi og störfum í iðnaði en hér á landi er verulegur skortur á tæknimenntuðu fólki.

Á myndinni má sjá lið Fjölbrautaskóla Suðurnesja við þraut þá sem útbúin var af starfsmönnum Rafals.