Vinnu við Apótek hótel, Austurstræti 16 lokið

Búið er að taka í notkun glæsilegt hótel þar sem gamla Apótekið var til húsa að Austurstræti 16 sem ber einmitt nafnið Hótel Apótek.
Byggingin var hönnuð árið 1917 af Guðjóni Samúelssyni fyrrum húsameistara ríkisins en Guðjón teiknaði margar af þekktustu byggingum Íslands, til að mynda Hótel Borg, Akureyrarkirkju og Hallgrímskirkju. Það var því ljóst í byrjun verks að það yrði töluverð áskorun að breyta svona fallegu og sögufrægu húsi í hótel. Starfsmenn okkar sáu um allar raflagnir á hótelinu en Rafal var í samstarfi við Jáverk í þessu verki. Það samstarf gekk afar vel og hlökkum við til næsta verks með þeim sem þegar er hafið en það er viðbygging við Menntaskólann við Sund.

Vinna við hótelið hófst af krafti á vordögum 2014 og lauk að fullu fyrir síðustu jól. Að jafnaði voru um tíu til fimmtán menn frá Rafal að störfum í verkinu.

Mikil ánægja er með afraksturinn og ljóst er að virkilega vel hefur tekist til að gera húsið að hóteli en ná jafnframt að varðveita gamla og fallega, friðaða innanstokksmuni. Útilýsingin er sérlega glæsileg eins og sést á meðfylgjandi mynd sem starfsmaður Rafal, Árni Rúnar Benediktsson, tók við verklok.