Dagur götulýsingar 2024

Dagur götulýsingar var haldinn hátíðlegur miðvikudaginn 4. september 2024 í húsakynnum Rafmenntar að Stórhöfða í Reykjavík. En um þetta leyti eða nánar tiltekið þann 2. september voru 148 ár frá því að kveikt var á fyrsta götuljósinu í Reykjavík þá olíulampa en árið 1921 komu fyrstu rafmagnstengdu götulamparnir.

Dagskrá viðburðarins var fjölbreytt og áhugaverð, þar sem sérfræðingar frá mismunandi sviðum götulýsingar deildu þekkingu sinni og reynslu. Þór Pálsson framkvæmdastjóri Rafmenntar setti viðburðinn, og á eftir honum fylgdu áhugaverð erindi frá Ástu Logadóttur frá Lotu, Viðari Einarssyni frá Reykjavíkurborg, Marsiu Moutzouri frá Flashnet, Hrafni Guðbrandssyni frá Rafal og Kristjáni D. Sigurbergssyni frá SI/SART. Þeir ræddu meðal annars um hönnun, áskoranir í rekstri, nýjungar í götulýsingakerfum og ávinning sveitarfélaga af útboðum.

Hrafn Guðbrandsson deildarstjóri Stafrænna lausna hjá okkur í Rafal hélt erindi um reynslu okkar af uppsetningu og rekstri götulýsingakerfisins í Hafnarfirði. En Rafal er þjónustuaðili kerfisins og árið 2023 unnum við útboð vegna stýringa fyrir kerfið með boði á InteliLight götuljósastýringum.

Í lok erinda tóku við pallborðsumræður þar sem Guðjón L. Sigurðsson frá Lisku bættist í hópinn og spurningar frá áhorfendum settu grunn að áhugaverðu samtali um stöðu götulýsingar frá mismunandi vinklum.

Viðburðinum var streymt á YouTube og má nálgast upptöku af honum á síðu YouTube síðu Rafmenntar.