Föstudaginn 13. október síðast liðinn var haldin opnunarhátíð á Vistvæna húsinu eða svokölluðu núllorkuhúsi sem er langtíma samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík, Fjölbrautaskólans í Breiðholti og Rafal. Af þessu tilefni skrifuðu Ásgeir Ásgeirsson, deildarforseti Iðn- og tæknifræðideildar HR, Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, skólameistari FB og Ingibjörg Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri sjálfbærni hjá Rafal undir samstarfsyfirlýsingu.
Verkefninu er ætlað að styðja við og auka áhuga á verk- og tækninámi, auka tengsl nemenda og menntastofnana við atvinnulífið og skapa vettvang fyrir þróun í kennslu og þar með aukin gæði náms. Fyrir Rafal sameinar þetta verkefni flest þetta skemmtilega í lífinu, umhverfisvernd, samfélagsábyrgð, stuðning við verk- og tækninám og stöðugar umbætur.
Húsið er smíðað á húsasmíðabraut FB og staðsett við aðalbyggingu skólans, hönnun, vinna við mælingar og úrvinnslu gagna ásamt endurbótum er unnin með samvinnu FB og HR. Markmiðið er að húsið verði sjálfbært með vistvæna orkuframleiðslu og uppfylli staðalinn ISO/TS 23764, sem tekur til skilyrða fyrir núllorkuhús önnur en íbúðarhúsnæði. Í húsinu verða framkvæmdar orkumælingar og mælingar á vistgæðum; loftgæðum, hita, rakastigi, birtustigi o.fl.
Rafal leggur til mælibúnað, aðgang að veflægum hugbúnaði og gagnasamskipti fyrir mælibúnaðinn, ásamt stuðningi frá sérfræðingum Rafal eftir þörfum. Þessi gangasamskipti fara í gegnum LoRaWAN kerfi Rafal. LoRaWAN samskiptin urðu fyrir valinu vegna þess að þannig getum við lágmarkað orkuna sem fer í fjarvöktunina, en lágmörkun notkunar auðlinda er eitthvað sem við ættum alltaf að stefna að, alla daga, alls staðar.